Ungt umhverfisfréttafólk
Nemendur FSu sigruðu keppnina "Ungt umhverfisfréttafólk" sem Landvernd heldur árlega. Sigurvegurunum er í kjölfarið boðið að taka þátt í alþjóðlegu keppninni Young Reporters for the Environment. Af fimm verkefnum sem rötuðu í úrslit átti FSu tvö, verkefnin "Kára hval" eftir Axel Sturlu, Konráð Inga og Sunnu Hlín og "Afneitun manns" eftir Ólöfu Völu.
Verkefnið Kári hvalur sigraði keppnina. Um er að ræða barnabók um Kára hval. Nemendurnir segja frá ævintýrum hans í ljóðrænum texta en bókin er í raun engin bók fyrir börn þar sem Kári hvalur lendir í hræðilegum atburðum og missir að lokum foreldra sína. Verkefnið er því sterk ádeila á hvalveiðar Íslendinga. Þau myndskreyttu einnig bókina.
Verkefnið var upphaflega unnið í landafræði þar sem nemendur þurftu að skoða vandamál í sínu nærumhverfi sem tengjast hafinu. Þar kviknaði þessi hugmynd sem þróaðist í þetta frábæra verkefni. Verkefnið er unnið á hverri önn í landafræði og nemendur hvattir til að taka þátt í keppni Landverndar og nú hefur umhverfisfræðin einnig ákveðið að hvetja nemendur til þátttöku í þessu frábæra verkefni.