Unnið með íslenskt hráefni
21.09.2011
Nemendur Guðríðar Egilsdóttur í MAT1Ú3 fá að reyna sig við mörg ólík og skemmtileg verkefni. Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur kynnist íslensku hráefni. Þeir hafa farið í sveppamó og bjuggu í framhaldinu til villisveppasúpu, einnig tínt sólber og búið til sultu. Jafnframt hafa þeir fengið að kynnast útieldun á hlóðum, eldað bauna- og grænmetisrétti og lært að baka brauð úr íslensku byggi.
Á myndinni má sjá nemendur úr bekknum vinna með ferskan fisk. Allir fengu eitt stykki ýsu sem þeir þurftu að flaka, beinhreinsa og roðfletta. Því næst var búinn til plokkfiskur og fiskibollur og að sjálfsögðu endað á matarveislu þar sem fiskurinn rann ljúflega niður með nýjum íslenskum kartöflum og heimabökuðu rúgbrauði með smjöri.