VARIRNAR Í MUNNÞURRKUNNI

Skáldið Dagur Hjartarson (f. 1986) heiðraði nemendur og kennara FSu með nærveru sinni mánudaginn 17. mars síðastliðinn. Var það að frumkvæði íslenskukennara skólans í nútímabókmenntum (ÍSLE3NB05) að fá hann til samræðu í hátíðarsal skólans Gaulverjabæ.

Kveikjan var sú að tekin var til lestrar og greiningar nýjasta skáldsaga Dags sem kallast Sporðdrekar. Dagur telst til yngri kynslóðar íslenskra rithöfunda og er mjög afkastamikill og fylginn sér í skrifum sínum. Auk rithöfundastarfa gegnir hann íslenskukennslu í menntaskólanum við Sund. Tíu skáldverk hafa komið út eftir Dag á tólf ára ferli. Hann er í grunninn ljóðskáld sem skrifar út á spássíurnar. Hóf ferill sinn árið 2012 með útgáfu ljóðabókarinnar Þar sem vindarnir hvíslast og fleiri einlæg ljóð en fyrir það verk hlaut hann Tómasarverðlaunin.

Smásagnasafnið Eldhafið yfir okkur fylgdi í kjölfarið árið 2013 og man fréttastjóri prýðilega eftir að hafa lesið það í sumarbússtað í Skorradal. Gegnumbrjótanlega skáldverk Dags er án efa Reykjavíkur – og ástarsagan Síðasta ástarjátninginn frá árinu 2016 þar sem hann teflir saman tveimur ólíkum atburðarásum með persónunni Tryggva annars vegar og Kristínu hins vegar í aðalhlutverkum. Sögumaður miðlar frásögninni.

Dagur Hjartarson hefur sérstaka áru og er kurteis húmoristi. Fallegur maður. Hann er rólegur og þenkjandi og djúpur. Hann nær samskiptum við nemendur og í spjalli sínu í Gaulverjabæ lagði hann áherslu á að allir ræktuðu sköpunargáfunu hvort sem það er í ritun eða í annarri sköpun. Það gerði hann sjálfur sem ungur maður og þróaði þá aðferð meðal annars í því að skrifa texta til kærustu sinnar sem síðar varð konan hans. Endum þessa frétt á myndríku og frábæru ljóði hans um rauðu varirnar á náttborðinu:

ÁSTARBRÉF

ég hef verið að reyna

að ná í þig

þú skildir eftir

varirnar þínar

í munnþurrkunni

síðustu helgi

ég hef hringt

af augljósum ástæðum

hefur þú ekki svarað

en ég vildi bara láta þig vita

að ég er með varirnar þínar

hérna á náttborðinu

og það truflar mig ekki vitund

þótt þú talir upp úr svefni.