Vatni ekki sóað
FSu hefur undanfarin tvö ár tekið þátt í evrópsku samstarfsverkefni þriggja skóla sem kallast Vatni ekki sóað, en samstarfssskólarnir voru frá Spáni og Slóvakíu. Áður höfðu nemendur og kennarar heimsótt Slóvakíu og í september sl. fengum við hópana í heimsókn hingað. Í liðinni viku fór hópur nemenda og kennara frá FSu í síðustu heimsóknina í þessu verkefni, en sá fundur var haldinn í Alcoy á Spáni, í sama skóla og kennarar FSu heimsóttu síðastliðið vor. Í þessa ferð fóru kennararnir Svanur Ingvarsson, Ronald Guðnason og Sólveig Sigmarsdóttir ásamt átta nemendum.
Dagskráin var stórglæsileg og var svo sannarlega haldið vel utan um gestina og margt í boði til að nálgast viðfangsefnið. Þar má telja heimsókn í sædýrasafn í Valencia, ýmsar göngur í náttúrunni þar sem sýndir voru brunnar, „ísvélar“ frá 19. öld og ýmislegt annað tengt vatni, sundferð og heimsókn í slökkvistöð. Eins voru heimsóttir þjóðgarðar, t.d. einn í grennd við Valencia þar sem farið var í bátsferð á lón prýtt fjölbreyttu fuglalífi, en vatnið er notað til að flæða hrísgrjónaakra ár hvert.
Gestrisni heimamanna var stórkostlegt og miklum tíma var varið bæði í hádegis- og kvöldverði þar sem hópurinn fékk að bragða á allskyns spænskum réttum. Einnig fékk hópurinn innsýn í menningu og sögu Alcoy, en þar verða bráðlega mikil hátíðarhöld til minningar um heilagan Georg sem bjargaði borginni frá innrás múslíma á 13. öld.