Veggjalist
Á haustönn 2015 var í fyrsta sinn í boði svokallaður Veggjalistaráfangi í myndlist í FSu. Nemendur í þeim áfanga hófust handa við að skreyta vegg einn langan sem snýr mót bílastæðum FSu og náðist að skreyta hann til hálfs og vakti verkið mikla lukku í samfélaginu. Nú haustönn 2016 heldur veggjalistin áfram og skal veggurinn kláraður. Samkenndir eru tveir veggjalistaráfangar á 2. og 3. þrepi. Það er skemmst frá því að segja að nemendur hafa farið hamförum í hugmyndavinnu og dugnaði strax í upphafi annar. Meirihluti hópsins er strax komin út á vegg með fullunnar skissur sínar til hliðsjónar og nú má sjá ný listaverk líta dagsins ljós og taka á sig mynd. Þemað er sem fyrr Bókabæirnir austanfjalls og því eru þarna ýmsar þekktar ævintýrapersónur á kreiki og sem og aðrar myndrænar tengingar við fantasíur, goðafræði og þá hugarheim sem finna má í sögum allskonar. Meðfylgjandi eru myndir frá útivinnu undanfarinna daga. Kennarar í áfangum eru Elísabet Helga Harðardóttir og Ágústa Ragnarsdóttir.
Fleiri myndir frá veggjalistaráfanganum má finna á fésbókarsíðu skólans.