Vegleg bókagjöf til skólans
16.11.2009
Bókasafni Fjölbrautaskóla Suðurlands barst nú á haustdögum vegleg bókagjöf frá Birni Júlíussyni á Selfossi. Í gjöf Björns er að finna fjölmargar fágætar bækur á sviði sögu, náttúrufræði og íslenskra bókmennta. Má þar nefna Kortasögu Íslands eftir Harald Sigurðsson, Dýraríki Íslands eftir Benedikt Gröndal, Iðnsögu Íslands (útg. 1943), Virkið í norðri eftir Gunnar M. Magnúss, Ferðabók Sveins Pálssonar 1791-1797, Íslandsleiðangur Stanleys 1789, auk ýmissa ritsafna eftir helstu skáld þjóðarinnar. Elsta ritið er frá árinu 1829, tímaritið Ármann á Alþingi sem gefið var út á árunum 1829-1832.
Björn er fæddur og uppalinn í Garpsdal við Gilsfjörð. Hann byrjaði að læra rafvirkjun um tvítugt við Iðnskólann í Reykjavík og starfaði um tíma við Rafstöðina í Elliðaárdal. Mestalla starfsævi sína vann hann við Sogsvirkjanir, eða á árunum 1954-1994. Á Selfoss flutti hann árið 1994 og hefur búið þar síðan.
Sýning á gjöf Björns stendur nú yfir á bókasafni FSu, auk þess sem sýning er í stiga Jónasar um fall Berlínarmúrsins fyrir 20 árum.