Vel heppnuð afmælishátíð
30 ára afmælisfagnaður FSu sem haldinn var í vikunni, gekk afar vel og var gleði í húsinu frá morgni til kvölds. Dagurinn byrjaði á ljúfum djassnótum í anddyri skólans þar sem Stefán Þorleifsson, Ragnar Geir Brynjólfsson og Karítas Harpa spiluðu og sungu. Hátíðin var sett af skólameistara og formanni nemendaráðs og því næst var haldið af stað í skrúðgöngu þar sem marserað var við undirleik lúðrasveitar undir stjórn Róberts Darling. Gengin var gamla hlaupabrautin undir forystu fyrrverandi skólameistara, Þórs Vigfússonar og staldrað við þær byggingar á Selfossi sem kennt var í á fyrstu árum skólans. Að göngu lokinni var haldið inn í hús aftur og gæddu menn sér á staðgóðum morgunverði sem fyrirtæki á Suðurlandi buðu til. Landlæknir og fulltrúi landlæknisembættisins komu og staðfestu FSu sem Heilsueflandi skóla.
Því næst tók við opin dagskrá þar sem nemendur og kennarar sýndu listir sínar, lesin voru ljóð, skólastofur voru opnar, fótboltamót var sett af stað og margt hægt að skoða. Þjóðlagahljómsveitin Korka stýrði dansi í miðrými skólans og svo var boðið upp á afmæliskringlu.
Seinnipart dags hélt hátíðin áfram með kjötsúpuveislu og kvölddagskrá þar sem fjölmargir komu fram og fluttu kveðjur og ávörp og gáfu gjafir til skólans. Þar á meðal kynnti Gylfi Þorkelsson, kennari við skólann, sögu skólans sem hann ritaði. Kvöldið endaði á fjörugum nótum með stuðhljómsveitinni Dúxarnir sem kom sérstaklega saman af þessu tilefni, en hljómsveitina skipa fyrrum nemendur skólans.