Verklegir dagar í trjá- og runnaklippingum
Það var fallegur og bjartur dagur fimmtudaginn 3. apríl þegar nemendur í áfanganum Trjá- og runnaklippingar mættu að Reykjum í verklega æfingu. Allir mættu vígreifir í vinnugallanum, spenntir að takast á við verkefnið. Skipt var upp í 4 hópa sem fóru um og spreyttu sig á fjölbreyttum verkefnum undir stjórn kennara. Þar fékk hver og einn fékk tækifæri til að spreyta sig á að nota alls konar tæki og tól. Brátt iðaði umhverfi skólans af lífi þar sem allir einbeittu sér að verkefnunum.
Nemendur eru með fjölbreyttan bakgrunn, sumir hafa unnið við klippingar um áraraðir en aðrir eru byrjendur. Nóg er af trjágróðri á heimasvæðinu á Reykjum svo hægt var að spreyta sig í limgerðisklippingum, grisjun á stakstæðum trjám, snyrtingu skrautrunna og fleiri verkefnum.
Veðrið lék við mannskapinn og það var þreyttur en glaður hópur sem hélt heim í lok dags. Næsta dag mættu allir aftur til að læra meira. Nú var haldið austur í Fljótshlíð þar sem dagurinn fer í að klippa og snyrta garðinn í Múlakoti.
Fleiri myndir á Facebook síðu Garðyrkjuskólans