VETRARLEIKAR FSu ERU SKEMMTILEG HEFÐ
Góð þátttaka var á Vetrarleikum Hestabrautar FSu sem fóru fram 3. mars síðastliðinn. Segja má að Unnsteinn Reynisson frá Hurðarbaki í Flóa hafi rúllað vetrarleikum ársins upp að þessu sinni á gæðingnum Styrk frá sama bæ. Það var erfitt færi og mikil hálka sem reyndi mikið á knapana sem urðu að ríða eftir aðstæðum. Kristín Hrönn Pálsdóttir frá Dverghamri í Flóa, á hestinum Gaumi frá Skarði, varð í öðru sætið og Sunna Lind Sigurjónsdóttir, frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum, endaði þriðja á Sókrates frá Árnanesi. Sunna Lind hlaut einnig reiðmennskuverðlaunin frá hestavöruverslun Baldvins og Þorvaldar.
Mjólkurtöltið sigraði Arndís Ólafsdóttir frá Halakoti við Selfoss, á Álfasteini frá Magnússkógum, en hann er stóðhestur úr ræktun ömmu og afa Arndísar. Sunna Lind Sigurjónsdóttir var önnur á heimaræktaða hestinum Skjálfta frá Efstu-Grund og Svandís Ósk Pálsdóttir frá Stokkseyri varð þriðja á hesti sínum Prinsi frá Kolsholti 3.
Fyrsta árs nemendur á hestabraut sáu um allan undirbúning og framkvæmd mótsins og tókst það virkilega vel, þrátt fyrir erfiðar veður aðstæður. Vetrarleikar FSu eru orðnir skemmtileg hefð sem hafa verið haldnir á ári hverju í sambandi við Káta daga í FSu, allt frá árinu 2006.
Hestamannsfélagið Sleipnir á Selfossi lánaði nemendum völlinn og svæðið og er samstarf hestabraut FSu og hestamannafélagsins afar dýrmætt og í stöðugri þróun. Nemendafélag FSu sáu um verðlaunapeningana.
Fleiri styrktaraðilar komu að mótinu og gáfu fleiri fyrirtæki á Suðurlandi vegleg verðlaun. Efstu sætin, bæði í tölti og mjólkurtölti, hlutu fallega blómvendi frá Húsasmiðjunni/Blómaval. Einnig voru glæsileg verðlaun frá Byko, Bíóhúsinu, Vor, Kaffi krús, Stúdíó S, Dýraríkinu og Vefjunni.
Úrslit í tölkeppni:
- Unnsteinn Reynisson og Styrkur frá Hurðarbaki
- Kristín Hrönn Pálsdóttir og Gaumur frá Skarði
- Sunna Lind Sigurjónsdóttir og Sókrates frá Árnanesi
- Þorvaldur Logi Einarsson og Greifi frá Áskoti
- Kristján Árni Birgisson og Tíra frá Votmúla
- Margrét Jóna Þrastardóttir og Grámann frá Grafarkoti
- Sunna Kjartansdóttir og Ferill frá Vestra-Geldingaholti
- Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir og Kató frá Litlu-Brekku
sis / jöz