VETRARLEIKAR FSu ERU SKEMMTILEG HEFÐ

Góð þátttaka var á Vetrarleikum Hestabrautar FSu sem fóru fram 3. mars síðastliðinn. Segja má að Unnsteinn Reynisson frá Hurðarbaki í Flóa hafi rúllað vetrarleikum ársins upp að þessu sinni á gæðingnum Styrk frá sama bæ. Það var erfitt færi og mikil hálka sem reyndi mikið á knapana sem urðu að ríða eftir aðstæðum. Kristín Hrönn Pálsdóttir frá Dverghamri í Flóa, á hestinum Gaumi frá Skarði, varð í öðru sætið og Sunna Lind Sigurjónsdóttir, frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum, endaði þriðja á Sókrates frá Árnanesi. Sunna Lind hlaut einnig reiðmennskuverðlaunin frá hestavöruverslun Baldvins og Þorvaldar.

Mjólkurtöltið sigraði Arndís Ólafsdóttir frá Halakoti við Selfoss, á Álfasteini frá Magnússkógum, en hann er stóðhestur úr ræktun ömmu og afa Arndísar. Sunna Lind Sigurjónsdóttir var önnur á heimaræktaða hestinum Skjálfta frá Efstu-Grund og Svandís Ósk Pálsdóttir frá Stokkseyri varð þriðja á hesti sínum Prinsi frá Kolsholti 3.

Fyrsta árs nemendur á hestabraut sáu um allan undirbúning og framkvæmd mótsins og tókst það virkilega vel, þrátt fyrir erfiðar veður aðstæður. Vetrarleikar FSu eru orðnir skemmtileg hefð sem hafa verið haldnir á ári hverju í sambandi við Káta daga í FSu, allt frá árinu 2006.

Hestamannsfélagið Sleipnir á Selfossi lánaði nemendum völlinn og svæðið og er samstarf hestabraut FSu og hestamannafélagsins afar dýrmætt og í stöðugri þróun. Nemendafélag FSu sáu um verðlaunapeningana.

Fleiri styrktaraðilar komu að mótinu og gáfu fleiri fyrirtæki á Suðurlandi vegleg verðlaun. Efstu sætin, bæði í tölti og mjólkurtölti, hlutu fallega blómvendi frá Húsasmiðjunni/Blómaval. Einnig voru glæsileg verðlaun frá Byko, Bíóhúsinu, Vor, Kaffi krús, Stúdíó S, Dýraríkinu og Vefjunni.

 

Úrslit í tölkeppni:

  1. Unnsteinn Reynisson og Styrkur frá Hurðarbaki
  2. Kristín Hrönn Pálsdóttir og Gaumur frá Skarði
  3. Sunna Lind Sigurjónsdóttir og Sókrates frá Árnanesi
  4. Þorvaldur Logi Einarsson og Greifi frá Áskoti
  5. Kristján Árni Birgisson og Tíra frá Votmúla
  6. Margrét Jóna Þrastardóttir og Grámann frá Grafarkoti
  7. Sunna Kjartansdóttir og Ferill frá Vestra-Geldingaholti
  8. Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir og Kató frá Litlu-Brekku

 

sis / jöz