Vettvangsferð í eðlisfræði
15 nemendur í EÐL313 fóru í vettvangsferð til Háskóla Reykjavíkur þriðjudaginn 25. nóvember, en margir þessara nemenda eru að útskrifast í desember eða í maí nk. Tilgangur þessarar ferðar var sú að veita nemendum innblástur um háskólanám í verk- og raunvísindum. Haraldur Auðunsson dósent tók vel á móti hópnum og sýndi honum húsakynni og tæki Tækni- og verkfræðideildar sem vakti mikla athygli og kátínu meðal nemendanna. Var m.a. sýndur kafbátur sem nemar höfðu hannað fyrr á árinu og sem tók þátt í kafbátakeppni á milli háskóla í Bandaríkjunum.
Rekstrarverkfræði, byggingarverkfræði og heilbrigðisverkfræði voru kynnt á athyglisverðan hátt og máttu nemendur t.d. meðhöndla sterk textílefni úr basalthrauni og þrívíddarprentara. Þegar nemendur gæddu sér á hressingunni sem var í boði, lá við að þeir spyrðu hvar þeir ættu að skrifa undir til að hefja nám. Skemmtileg ferð þetta! Kennari er Ronald B. Guðnason.