Viltu verða orkubóndi?
Tæplega 60 nemendur úr náttúrufræði og rafiðnadeild í FSu fóru á ráðstefnuna Viltu verða orkubóndi? sem haldin var á Stokkseyri þriðjudaginn 6. október frá kl. 10.00 - 16.30. Á ráðstefnunni var fjallað um virkjun orku og þá aðallega endurnýtanlegrar orku, s.s vatnsorku, jarðhita og sólarorku, og framleiðslu eða söfnun lífrænna orkugjafa eins og etanóls, lífdísils og metans svo eitthvað sé nefnt. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru sérfræðingar frá Nýsköpunarmiðstöð, Orkustofnun og færustu verkfræðistofum landsins á sviði orku.
Nemendur í Nát 123 hafa undanfarnar tvær vikur verið að vinna að verkefni sem tengist orkuvinnslu og orkunýtingu og fengu þarna tækifæri á að spyrja færustu menn landsins spurninga í tengslum við það. Erindi voru í alla staði gagnleg og sett fram á máli almennings. Móri virtist þó hafa gert vart við sig á ráðstefnunni þar sem skjávarpinn virkaði ekki almennilega og hljóð barst illa um salinn og voru þó nokkrir sem fóru á mis við þær upplýsingar sem fram komu vegna þessa.
Nemendur og kennarar FSu þakka skipuleggjendum ráðstefnunnar kærlega fyrir að hafa fengið að taka þátt.