Vinnufúsir rafiðnarnemendur

Nemendur á annari önn grunndeildar rafiðna hafa verið duglegir í vetur og hafa unnið að endurbótum og hagræðingu í samráði við kennara sinn Grím Lúðvíksson eftir að skylduverkefnin voru búin og fleiri verkefni þurfti fyrir vinnufúsa nemendur.

Eitt af því var að koma upp fastri innbyggðri lóðstöð í öll borð í verknámsstofu rafiðna. Það þurfti því að hanna verkið, koma upp spennistöð og tengja við rafmagnstöflu, draga alla víra frá spennistöð og í borðin, smíða rafeindabrettið og koma því fyrir í borðinu og stilla lóðstöðina. Nú þegar er öll aðal lagnavinna búin og 4 borð tilbúin af 12.

Nú þurfa nemendur ekki lengur að drösla lóðstöð fram og til baka frá tækjageymslunni sem sparar dýrmætan tíma og fyrirhöfn.

Á myndunum má sjá ánægða nemendur eftir að fyrsta stöðin var tilbúin.