Vorkeppni Tapsárra
Þann 16. maí var fyrri einvígisleikur ársins milli Hyskis Höskuldar og Tapsárra Flóamanna (bridgesveitar starfsmanna FSu) spilaður að Sigurðarstöðum í Vík. Leikurinn endaði 68 66 fyrir Flóamenn, sem af Hyskinu hefur á árum áður flokkast sem stórsigur en Flóamenn eru lítillátir og flokka úrslitin sem jafntefli. Allt er því opið fyrir seinni hluta þessa einvígis sem verður framhaldið í Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri á haustdögum.
Eftir 47 leiki og 23,5 ár er staðan í einvígi þessara fornu "fjenda" þannig að Tapsárir Flóamenn hafa skorað 3858 impa en Hyskið 3882. Vinningsstig standa 691 fyrir Flóamenn á móti 700 hjá Hyskinu. Flóamenn hafa unnið 24 leiki en Hyskið 23 en Hyski Höskuldar hefur unnið bikarinn 13 sinnum en Tapsárir eingöngu 10 sinnum. Á myndinni eru sveitirnar staddar við Hrúthálsafoss.