Who's afraid of the big bad wolf
Í lok september fóru fimm fulltrúar frá F.Su. á fund til Slóvakíu. Tilefnið var Comeniusarverkefnið Whos afraid of the big, bad wolf?
Verkefnið felst m.a. í að rannsaka viðhorf mannsins til rándýra, bæði sögulega og menningarlega, rýna í goðsögur, skáldsögur, sérstaklega úlfa, refa og bjarndýra, bera þessa þætti saman á milli mismunandi menningarheima og samfélaga innan Evrópu og leita uppi sameiginlega og ólíka þætti. Frá F.Su. fóru nemendurnir Bergsteinn Kárason, Bryndís Blöndal og Sölvi Sveinsson og starfsmennirnir Haraldur Eiríksson fjármálastjóri og Þór Stefánsson kennari. Á fundinum voru fulltrúar frá Slóvakíu, Póllandi, Portúgal, Spáni, Ítalíu, Litháen, Rúmeníu, Eistlandi og Noregi. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu.
Flogið var til Varsjár. Þar var lent seint á laugardagskvöldi og gist þar. Á sunnudeginum var farið með lest til Kraká. Þar eyddi hópurinn fáeinum klukkustundum en hitti síðan nemendur og kennara frá hinum löndunum. Frá Kraká fór hópurinn með rútu til þorpsins Giraltovce í Slóvakíu. Í Giraltovce gistu nemdur heima hjá gestgjöfunum. Á mánudeginum var dvalið í Giraltovce, hlustað á kynningar og fyrirlestra. Nemdur kynntu verkefni F.Su. í ráðhúsi bæjarins. Um kvöldið héldu heimamenn glæsilega kvöldvöku þar sem þeir fluttu tónlist og sýndu dansa. Á þriðjudeginum var ferðinni heitið í Slovak Paradise þjóðgarðinn þar sem hópurinn fór í 10 kílómetra langa göngu á erfiðri gönguleið með háum stigum, sleipum tröppum og öllu mögulegu. Þeir lofthræddu gátu valið auðvelda leið. Þrátt fyrir að gangan hafi verið erfið og ógnvænleg skemmtu allir sér mjög vel. Eftir gönguna var haldið á hótel í Kezmarske Zlaby þar sem gist var næstu tvær næturnar. Á miðvikudeginum var farið í High Tatras þjóðgarðinn. Þar var farið í aðra göngu. Hún var nú mun léttari en sú fyrsta og var leitað að bjarnarfótsporum. Leitin heppnaðist mjög vel og fannst aragrúi af sporum eftir skógarbirni, ásamt sporum eftir dádýr og hirti. Eftir gönguna var farið í sundlaugargarðinn Aquacity í bænum Poprad. Á fimmtudeginum var haldið áfram að skoða þjóðgarða landsins og var farið í Pieniny þjóðgarðurinn. Þar fór hópurinn í rafting á hefðbundnum slóvakískum flekum á ánni Dunajec, en hún skilur að Pólland og Slóvakíu. Haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta og var útsýnið mjög fallegt á siglingunni. Það var virkilega skemmtileg upplifun sem gleymist seint, enda virkilega fallegt þar.
Eftir skemmtilega dvöl í Slóvakíu var haldið til Póllands.
Á föstudeginum var farið til Kraká og borgin skoðuð ásamt norskum vinum, þeim Per, Silje og Emilie. Var m.a. farið í safn Schindlers. Á laugardagsmorgninum fóru Bergsteinn og Sölvi til Auschwitz og Birkenau. Það tók virkilega á taugarnar að sjá m.a. gasklefana, hárið af fólkinu og fleira. Um miðjan dag á laugardegi var farið með lest til Varsjár og flogið heim til Íslands.
Ferðin var stórskemmtileg í alla staði. Nemdur lærðu heilmikið, kynntust mörgu skemmtilegu fólki hvaðanæva úr Evrópu, sáu eitthvað nýtt á hverjum degi, fóru í fjallgöngur, í sundlaugagarða og svo mætti lengi telja. Þau mæla með ferð af þessu tagi fyrir hvern þann sem langar að ferðast til annarra landa, kynnast nýju fólki og læra eitthvað nýtt og spennandi. Þetta var reynsla sem þau gleyma aldrei!