Yfirlýsingar vegna Hrekkjavökudansleiks
Á skólaballi FSu á fimmtudagskvöld sem haldið var í Hvíta húsinu á Selfossi varð uppþot vegna þess að endurskoðuðum skólareglum var framfylgt. Skólareglur FSu eru í anda forvarnarstefnu framhaldsskólanna sem samþykkt var vorið 2014. Í þeim tilvikum þar sem grunur lék á að nemandi væri undir áhrifum áfengis hafði hann val um að afsanna að svo væri með því að blása í áfengismæli ellegar að yfirgefa svæðið.
Vel mönnuð gæsla á ballinu stóð sig með mikilli prýði, hún samanstóð af kennurum, dyravörðum, nemendum og fulltrúum frá Björgunarsveit Árborgar.
Guðbjörg Grímsdóttir, félagslífs- og forvarnarfulltrúi
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari
Yfirlýsing frá Nemendaráði FSu
Eins og flestir vita hélt Nemendafélag FSu hið árlega hrekkjavökuball félagsins í Hvítahúsinu í gærkvöldi. Spenningur var farinn að myndast og var skreytingarnefndin búin að skreyta húsið stórglæsilega að innan. Skipulagning gekk með hefðbundnum hætti og allt leit vel út. Kynntar voru fyrir nemendum í byrjun skólaársins nýjar skólareglur sem kveða á um að öll neysla áfengis og annarra vímuefna sé með öllu óheimil. Ákveðið var að biðja þá nemendur sem grunaðir voru um að vera undir áhrifum áfengis að blása í áfengismæli til þess að skera úr um hvorr áfengis hefði verið neytt. Þetta fór ekki vel í suma nemendur og braust út mikil reiði meðal þeirra sem ekki fengu aðgöngu vegna ástands þeirra. Þrjár tvöfaldar rúður voru brotnar, ein hurð var skemmd, stubbaker var mölbrotið og girðing fyrir útisvæðið var felld með þeim afleiðingum að hún féll ofan á bíl eins nemanda og olli miklu tjóni. Reiðin var þó mest í miðasölunni þar sem sumir nemendur m.a hótuðu starfsfólki og veittust að þeim með einum eða öðrum hætti.
Þeir nemendur sem fengu aðgöngu fengu heldur betur að finna fyrir afleiðingum þeirra sem ekki gátu haft stjórn á skapi sínu. Þetta varð til þess að nemendaráð, öryggisgæsla, kennarar og aðrir starfsmenn sáu ekki annað í stöðunni en að loka ballinu og senda alla heim. Það var ekki fyrr en lögreglan mætti á svæðið að andrúmsloftið fór að róast, lögreglan ráðlagði nemendaráði að halda skemmtuninni áfram þar sem fullt af nemendum voru enn inni að skemmta sér. Þá var það um seinan þar sem nemendaráð hafði þegar tekið sameiginlega ákvörðun með aðalhljómsveit kvöldsins (Úlfur Úlfur) að best væri að þeir myndu yfirgefa svæðið til þess að koma í veg fyrir frekari óeirðir.
Við hörmum þessa framkomu nemenda í garð þeirra sem stóðu að þessu balli og viljum biðja þá sem aðstoðuðu okkur við undirbúning innilegrar afsökunar. Viljum við biðja þá nemendur sem fengu aðgöngu inn á ballið velvirðingar á því að þeir hafi ekki fengið það sem þeir greiddu fyrir. Að lokum viljum við þakka kennurum, starfsfólki og þeim nemendum sem hjálpuðu til.
.
Viðingarfyllst,
Nemendaráð Fjölbrautaskóla Suðurlands.